fbpx

Fyrirtækjastyrkir & reglur

Leiðbeiningar

Hvernig sækir fyrirtæki um starfsmenntastyrk í gegnum Áttina?

Fyrst þarf að athuga eftirfarandi atriði:

1. Til hvaða starfsmenntasjóðs/a greiðir fyrirtækið iðgjöld?

• Það fer eftir stéttarfélagsaðild starfsfólksins (þátttakenda fræðslunnar).

• Skoðið myndina hér til að sjá hvaða sjóði stéttarfélögin tilheyra og athugið að sum tilheyra fleiri en einum sjóði.

• Ef stéttarfélag þátttakenda er ekki á myndinni þá er ekki hægt að sækja um styrk í gegnum Áttina fyrir þeim.

2. Farið yfir skilyrði og reglur starfsmenntasjóðs eða sjóða fyrirtækisins hér. Frekari reglur sjóða má skoða á vefsíðum þeirra.

3. Kynntu þér hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn vegna almennra námskeiða í ramma á forsíðunni. Vegna annarra umsókna skal skoða vefsíðu þess sjóðs sem á við.

4. Hafðu fylgigögnin til haga og smelltu á „sækja um“ til að hefja umsóknarferlið.

• Horfðu á myndbandið „Hvernig á að sækja um styrk“ á forsíðunni fyrir frekari leiðbeiningar við umsóknarferlið.

Mörgum finnst flókið að finna í hvaða sjóði á að sækja. Það fer eftir stéttarfélagsaðild þátttakenda í þeirri fræðslu sem sótt er um styrk til. Ef starfsmannahópurinn (þátttakendur í fræðslunni) er dreifður í mörg stéttarfélög getur verið að það þurfi að haka við fleiri en einn sjóð í umsókn. Hér er yfirlit um aðild stéttarfélaga (og þar með félagsfólks) að starfsmenntasjóðum atvinnulífsins sem er gagnlegt að glugga í áður en sjóðir eru valdir í umsókn.

Yfirlit um aðild stéttarfélaga að starfsmenntasjóðum atvinnulífsins (pdf)

Styrkir til námskeiða og þjálfunar

Flestir starfsmenntasjóðir bjóða upp á styrki til fræðslu starfsfólks fyrirtækja. Meginmáli skiptir að sjóðirnir styrkja aðeins hlutfallslega fyrir sitt félagsfólk. Því eru upplýsingar um stéttarfélagsaðild starfsfólks mikilvæg fylgigögn með umsókn ásamt reikningi fræðsluaðila eða áætlun um kostnað við fræðsluna. Sjóðirnir styrkja að jafnaði um 50-90% af kostnaði fyrir sitt félagsfólk í fyrirtækjunum en ýmsar reglur gilda um aukakostnað eins og t.d. salarleigu o.fl. Greiðsla styrkja fer alltaf fram eftir að fræðsla hefur átt sér stað en sumir sjóðir geta tekið fyrir umsóknir áður en fræðsla fer fram og veitt styrkloforð.

Lækkun iðgjalda / Styrkur til eigin fræðslu

Margir sjóðir styrkja fræðslu fyrirtækja þar sem fyrirtækin nota eigin leiðbeinendur. Ýmist eru fyrirtæki styrkt með beinum hætti eða þau geta sótt um lækkað iðgjald. Fræðsluáætlun þarf að liggja fyrir og styrkur er alltaf greiddur út eftir að fræðsla hefur farið fram. Reglur sjóðanna eru nokkuð mismunandi og því er best að kynna sér málin hjá sjóðunum t.d. StarfsafliLandsmennt, Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóði verslunarinnar og Menntasjóði Sambands stjórnendafélaga.

Fræðslustjóri að láni

Fræðslustjóri að láni er samvinnuverkefni allra sjóðanna/setranna. Verkefnið byggist á að lána út mannauðsráðgjafa, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun, til fyrirtækja í tiltekinn tíma. Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins og gerir greiningu á þörfum þess í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk. Út frá greiningunni er unnin fræðslu- og símenntunaráætlun sem leggur grunn að markvissri fræðslu starfsfólks. Enginn útlagður kostnaður er vegna fræðslustjórans. Sjá nánar um Fræðslustjóra að láni

Niðurgreidd námskeið RAFMENNTAR og IÐUNNAR

RAFMENNT og IÐAN fræðslusetur nota starfsmenntagjald, sem þau fá greidd vegna félagsfólks síns í iðnaði, til að niðurgreiða sérhæfða fræðslu í þágu félagsfólks síns. Fyrirtæki eru hvött til að kynna sér úrval námskeiða á vefsíðum RAFMENNTAR og IÐUNNAR.