fbpx

Fræðslustjóri að láni

Verkefnið byggist á að lána mannauðsráðgjafa til fyrirtækja, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun.  Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, dregur fram það sem vel er gert, gerir eða dýpkar greiningu á þörfum fyrirtækisins og samhæfir við önnur námskeið eða viðurkenndar fræðsluleiðir innan óformlega fræðslukerfisins. Má þar nefna námsleiðir samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins – þar sem það á við.


 

Fræðslustjóri að láni er fyrirtækjum að kostnaðarlausu ef aðild starfsmanna fyrirtækisins að sjóðunum sem standa að Áttinni er 75% eða meiri.


 

Hvernig er sótt um fræðslustjóra að láni?

1.  Umsókn um Fræðslustjóra að láni. Fylgigögn sem þurfa að fylgja umsókn eru: rökstuðningur og upplýsingar um þátttakendur og stéttarfélagsaðild.

í rökstuðningi þarf að koma fram: 

  • Af hverju er óskað eftir því að fara af stað með verkefnið og hverju vill fyrirtækið að það skili?
  • Er vilji og samþykki æðstu stjórnenda fyrir hendi að fara af stað með verkefnið?
  • Er stefna og framtíðarsýn fyrirtækis ljós?
  • Er fyrirliggjandi stefna í fræðslumálum?
  • Er svigrúm fyrir fræðslu innan fyrirtækisins ?  Í því felst að skoða hvernig hefur gengið að þjálfa og fræða starfsfólk fram til þessa, s.s. finna tíma fyrir fræðsluna innan vinnutímans, tryggja fræðslu allra starfshópa og þess háttar.
  • Er fyrirtækið tilbúið til þess að fjárfesta í innleiðingu á fræðslu? Með hvaða hætti sér fyrirtækið það fyrir sér (sérstaklega ef fyrirtækið er ekki með starfsmann sem heldur utan um fræðslu starfsmanna)

 

2.  Starfsmaður leiðandi sjóðs í verkefninu mun hafa samband við fyrirtækið í kjölfarið og koma verkefninu í ferli innan sjóðanna (sjá yfirlitsmynd hér að ofan)

Mikilvægt að hafa í huga

  • Einungis er leitað til ráðgjafa sem hafa mikla reynslu af verkefnum í fyrirtækjum og eru samþykktir af samstarfssjóðum verkefnisins
  • Verkefnið er mótað í fullu samráði við fyrirtækið
  • Áætlunin er eign fyrirtækisins og viðkomandi sjóða
  • Fyllsta trúnaðar er gætt um allt sem við kemur verkefninu

Algengar spurningar

Hvaða fyrirtæki geta fengið fræðslustjóra að láni? Fyrirtæki sem greiða starfsmenntaiðgjöld í IÐUNA fræðslusetur, Landsmennt, Sjómennt, Starfsafl, RAFMENNT, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóð verslunarinnar og Menntunarsjóð Sambands stjórnendafélaga.

Er óþarfi að fá fræðslustjóra að láni þegar fyrirtækið hefur nú þegar fræðslustjóra innan fyrirtækisins? Síður en svo þar sem reynslan af verkefnunum hefur leitt í ljós að fræðslustjórar fyrirtækja telja það mikinn styrk að fá greiningu fræðsluþarfa frá óháðum aðila.

Hvað tekur verkefnið langan tíma? Það fer eftir stærð og þörfum fyrirtækisins. Algeng tímalengd er 2-4 vikur, en mælst er til að því ljúki innan tveggja mánaða.

Hverjir eru ráðgjafarnir? Sjóðirnir eru í samstarfi við ráðgjafafyrirtæki og fræðslustofnanir sem eru með reynda og vel menntaða ráðgjafa. Ráðgjafarnir hafa ólík sérsvið og nálganir en fylgja þó allir sömu verkefnalýsingunni.